Göngum, göngum, göngum uppí...

...ísbúð!  Ég var örugglega ekki búin að segja ykkur frá gönguklúbbnum sem að við nokkrar í vinnunni stofnuðum um daginn.  Fórum í jómfrúargönguna á þriðjudaginn síðasta eftir vinnu, það var þetta fína veður úti þegar gangan hófst, en eftir u.þ.b. 5 mínútur, var komin mígandi rigning.  Túrinn var í heildina um klukkustundar langur, og notuðumst við við göngustíga sem að liggja í gegnum leita og vallahverfin.  Við erum stoltar af því að hafa staðist freistinguna því að leiðin lá framhjá aðal ísbúð bæjarins - en það langar engann að borða ís úti í rigningu.  Við ætlum að halda áfram að hittast á þriðjudögum og tökum börnin með okkur.  Vonandi verður amk. þurrt næst!

Annars var ég í bæjarrápi í dag, læknastúss á okkur mæðgum, enduðum allar í stólnum hjá háls-nef og eyrnalækninum.  Hann vildi meina að þetta eyrnavesen á stelpunum væri að öllum líkindum arfgengt og að annað, ef ekki bæði foreldranna verið eyrnabörn.  Ég sagði að það væri nú skrítið, því að við hefðum sko ekki verið með í eyrunum sem börn.  Hann bað mig vinsamlegast um að setjast í stólinn svo að hann gæti mælt og skoðað mig í boði hússins, og hvað haldið þið, ég hef verið með miklar eyrnabólgur sem barn því að hljóðhimnan hægra megin sérstaklega ber þess merki. (einhver vansköpun og hola á henni).   Stundum er hægt að vera með bólgur í mörg ár, án þess að nokkuð virðist að barninu.  Einu vísbendingarnar geta verið að barnið fer að heyra illa - samanber það sem að var að Elizu Lív, greinilega búin að vera með eyrnabólgu í mörg ár og hálf heyrnarlaus þar til að hún fékk rörin um daginn.  Og svo hefur hún líka verið með eyrnabólgu bara fyrir nokkrum vikum, en þökk sé rörunum, að þá lak hún bara beint út!  Hann sagði líka að ég gæti hafa fengið bara í hægra eyrað, og þess vegna ég ekki misst heyrn og þetta aldrei uppgötvast.  Og að þetta hafi síðan bara gengið til baka með árunum, og ég verið heppin, því að þetta hefði getað endað á hinn veginn, með einhverjum agalegum sjúkdómi, sem felur í sér heyrnarleysi og jafnvel dauða ef ekki er gripið nógu snemma inní.  Held að hann hafi verið að hræða mig til að koma með stelpurnar á réttum tíma í skoðun á 3. mánaða fresti, hann fékk nefnilega barn í síðustu viku til sín sem að hafði verið trassað að koma með í tékk í heilt ár og allt komið í óefni!  En við erum semsagt á góðu róli, eyrnalega séð!

Bóndinn er enn í útlöndum (Hamborg og London), og ekki væntanlegur fyrr en aðfararnótt laugardags, spurning hvort að hann sjáist eitthvað heima yfir helgina, brjálað að gera í húsbyggingu!  Eitthvað var hann að tala um að fara til Denver í næstu viku, en ekkert komið á hreint með það ennþá - kemur í ljós um helgina! 

Úlpur eru annars illfáanlegar í landi elds og ísa á þessum árstíma.  Ég hefði haldið að úlpur þyrftu að vera til sölu á Íslandi, á öllum árstímum, því að hér er alltaf kalt, bara mismikið!  Ekki get ég af því gert að barnið tók upp á því að vaxa uppúr úlpunni sinni núna, en ekki á hentugum úlpusölutíma!  Ég er búin að þræða alla Kringluna 2x en það er engin úlpa til þar í stærð 92 á stelpu - bara léttir sumarjakkar og vindjakkar.  Dettur enn í hug 2 staðir til að kíkja á, en fresta því fram að næstu bæjarferð, hún verður bara að brúkast við ermastutta úlpu stelpuskottið, fólk heldur örugglega að við séum svona illa stödd, álpappír í gluggunum og barnið í of litlum fötum, hahahahahahahahahahahaha............... Hlæjandi

Gaman að þessu!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ekkert kvart og kvein í þér eða hinum ungunum í denn.
Eyrnabólga er varla þekkt í minni nánustu fjölskyldu nema ein undartekning en það var Sigrún þá um eins árs gömul sem fékk svo rosalega í eyrun að fjölskyldan svaf ekki í marga mánuði. Þá var ég nottlega á gelgjunni og fannst systir mín afar pirrandi. Í dag alveg yndisleg systir. Mamma.

María (IP-tala skráð) 5.5.2006 kl. 13:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband