Fimmtudagur, 6. apríl 2006
USA - here I come!
Ja, það er nú oft mikil lognmolla í kringum okkur, en ekki þessa dagana get ég sagt ykkur. Klukkan 15:30 í gær var tekin sú ákvörðun, fyrst að Jón Fannar þyrfti að vera á fundi í Providence á mánudag og þriðjudag, að ég myndi bara fara með til das USA. Og til að gera þetta að svolítilli ferð, ákváðum við að fara seinnipartinn á morgun, föstudag. Hann kemur frá Glasgow um 12:30 á morgun, vélin fer í loftið til Boston klukkan 17:00 svo að hann nær nokkrum tímum á Íslandi áður en við höldum út aftur. Brjáluð ferðalög alveg.
Við ætlum að slaka á í Boston um helgina, og svo á sunnudagskvöld færum við okkur yfir til Providence þar sem að ég hef hugsað mér að kanna innviði eins og nokkurra verslunarmiðstöðva á meðan kallinn vinnur inn fyrir reikningunum!
Ömmurnar ætla að sjá um að passa börnin og Anna frænka hjálpar aðeins til líka. Við missum af svaka afmælisveilsu hjá Ásu og Jóni á laugardaginn, en stelpurnar mæta náttúrulega þangað með pakka fyrir okkar hönd. Við komum svo aftur til landsins á miðvikudagsmorgun, rétt svona til að útbúa einn rétt fyrir ferminguna hennar Beggu sem að er á skírdag.
Aníta greyið er búin að vera frekar slöpp alla vikuna, er náttúrulega komin á enn eitt pensillínið með sínum fallegu aukaverkunum. Hún var svo brennd á bossanum áðan þegar hún kom frá dagmömmunni að hún gat varla gengið - maður þarf að vakta bleyjuna hennar því að það kemur engin lykt en deadly burning! Greyið er frekar aumt og orðin hvekkt á öllum þessum meðölum, smá slagur í kvöld við að koma pensillíninu ofan í hana. Hef verið að reyna að koma ofan í hana eplum og eplasafa og fékk í apótekinu einhverjar töflur sem að eiga að auðvelda henni að endurbyggja þarmaflóruna. Það sem verra er að það eru nokkrir dagar eftir, flaskan af meðalinu er rétt hálfnuð svo að það verður gaman hjá ömmu gömlu um helgina Ég ætla rétt að vona að þetta sýklalyf sé að virka á eyrnabólguna og pirringurinn sem að er í henni núna sé vegna brennda bossans og ónota af sýklalyfinu.
Eliza er afturámóti bara í góðum fíling þessa dagana og dundar sér endalaust við það að perla. Það kemst fátt annað að hjá henni þessa dagana en að perla spjald eftir spjald eftir spjald, straujárnið nær vart að kólna á milli, því að auðvitað þarf að strauja alla þessa miklu handavinnu. Henni gengur vel í leikskólanum, var í foreldraviðtali um daginn sem að kom vel út, þurfum samt að taka á einum hlut, en það er að láta ekki eftir henni þegar hún fer að væla, og venja hana af því að vera svona vælin yfir öllu sem að miður fer. Hennar sterku hliðar eru fínhreyfingarnar og handavinna af ýmsu tagi, föndur er hennar fag! Henni finnst afturámóti leiðinlegt að leika sér úti og er lengi að klæða sig og ef kalt er úti húkir hún við hurðina og bíður eftir að vera hleypt inn aftur. Hefur kannski eitthvað að segja að hún var ekki vön að vera mikið úti að leika sér meðan við bjuggum úti, nema þá náttúrulega í góðu veðri. En þetta er allt í rétta átt og þær voru mjög ánægðar með hana, enda komin af góðu fólki, gáfuð og vel upp alin!
Er loksins búin að pakka ofaní tösku fyrir ferðina, finna til vegabréfið og græja mig til, fer svo til beint úr vinnunni uppí flugstöð. Við ætlum þó að sækja stelpurnar og koma þeim í pössun til Önnu, en þær verða svo sóttar þangað. Náum að kveðja þær, en spurningin er hvernig Aníta greyið tekur þessum aðskilnaði frá mömmu sinni, hefur aldrei verið svona lengi í burtu frá mér áður, metið er 3 nætur, núna verða þær 5! Mamman er nú þegar búin að fá geðveikt samviskubit yfir að skilja þær svona eftir og fór með þeim í dótabúðina seinnipartinn og prinsessaði þær aðeins upp með hálsmenum, eyrnalokkum og hringum ásamt prinsessuskóm. Úff, eins gott að það séu bara ljót barnaföt í henni Ameríku, þetta gæti annars endað í ferðatöskum!
Athugasemdir
ráð við niðurgangi...grjónagrautur þykkur nota eins lítið af mjólk og mögulegt er, bláberjasúpa frá Vilko hefur reynst vel líka......hmmm mér langar með til USA.....viss um að það er fullt af fallegu dóti sem bíður eftir að það sé keypt handa stóru systur þinni fyrst hún kemst ekki sjálf þangað, enda konan að ferma og að verða a....!!!!!!!!
Auja (IP-tala skráð) 7.4.2006 kl. 11:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.