Miðvikudagur, 9. apríl 2008
Vorið er komið...
...eða svo hélt ég þangað til mér varð litið út um gluggann í morgun. En snjórinn á nú að stoppa stutt við í þetta skiptið segja þeir. Meira að segja stelpurnar eru farnar að kvarta, "hvenær kemur sumarið" spyrja þær reglulega. Já, það er ekki að sjá að sumardagurinn fyrsti sé eftir hálfan mánuð. Aumingja lóan - skyldi hún lifa þessar hremmingar af? Væntanlega!
Annars er að hefjast hjá mér heilmikil törn í skólanum, lokahnykkurinn í verkefnaskilum áður en prófin hefjast. Ég verð að játa það að mig er nú svolítið farið að hlakka til að komast í sumarfrí, þó ég ætli að vinna eitthvað í því - eilíf verkefnavinna og lestur tekur toll af manni!
Fórum á stórskemmtilega ballettsýningu í síðustu viku og horfðum á frumburðinn skoppa um svið Borgarleikhússins sem kanína - voða stolt mamma tók fullt af myndum sem munu líta hér dagsins ljós von bráðar í formi stuttmyndar. En lærdómurinn kallar svo ætli það sé ekki best að sinna honum það sem eftir lifir leikskólavistunar barnanna!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.