Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2006

Brottför

Þetta er bloggað úr betri stofunni í flugstöðinni - sitjum hér og sötrum bjór og troðum í okkur bakkelsi í boði Icelandair!  Já, mikið agalega er lífið ljúft allt í einu!  Svalur

Stelpurnar komnar í pössun, ég komin í páskafrí, með bjór í annarri og kallinn í hinni, á leiðinni í utanlandsferð og búðarráp!  Gæti lífið verið betra?


USA - here I come!

Ja, það er nú oft mikil lognmolla í kringum okkur, en ekki þessa dagana get ég sagt ykkur.  Klukkan 15:30 í gær var tekin sú ákvörðun, fyrst að Jón Fannar þyrfti að vera á fundi í Providence á mánudag og þriðjudag, að ég myndi bara fara með til das USA.  Og til að gera þetta að svolítilli ferð, ákváðum við að fara seinnipartinn á morgun, föstudag.  Hann kemur frá Glasgow um 12:30 á morgun, vélin fer í loftið til Boston klukkan 17:00 svo að hann nær nokkrum tímum á Íslandi áður en við höldum út aftur.  Brjáluð ferðalög alveg. 

Við ætlum að slaka á í Boston um helgina, og svo á sunnudagskvöld færum við okkur yfir til Providence þar sem að ég hef hugsað mér að kanna innviði eins og nokkurra verslunarmiðstöðva á meðan kallinn vinnur inn fyrir reikningunum! Svalur

Ömmurnar ætla að sjá um að passa börnin og Anna frænka hjálpar aðeins til líka.  Við missum af svaka afmælisveilsu hjá Ásu og Jóni á laugardaginn, en stelpurnar mæta náttúrulega þangað með pakka fyrir okkar hönd.  Við komum svo aftur til landsins á miðvikudagsmorgun, rétt svona til að útbúa einn rétt fyrir ferminguna hennar Beggu sem að er á skírdag.

Aníta greyið er búin að vera frekar slöpp alla vikuna, er náttúrulega komin á enn eitt pensillínið með sínum fallegu aukaverkunum.  Hún var svo brennd á bossanum áðan þegar hún kom frá dagmömmunni að hún gat varla gengið - maður þarf að vakta bleyjuna hennar því að það kemur engin lykt en deadly burning!  Greyið er frekar aumt og orðin hvekkt á öllum þessum meðölum, smá slagur í kvöld við að koma pensillíninu ofan í hana.  Hef verið að reyna að koma ofan í hana eplum og eplasafa og fékk í apótekinu einhverjar töflur sem að eiga að auðvelda henni að endurbyggja þarmaflóruna.  Það sem verra er að það eru nokkrir dagar eftir, flaskan af meðalinu er rétt hálfnuð svo að það verður gaman hjá ömmu gömlu um helgina Fýldur  Ég ætla rétt að vona að þetta sýklalyf sé að virka á eyrnabólguna og pirringurinn sem að er í henni núna sé vegna brennda bossans og ónota af sýklalyfinu.

Eliza er afturámóti bara í góðum fíling þessa dagana og dundar sér endalaust við það að perla.  Það kemst fátt annað að hjá henni þessa dagana en að perla spjald eftir spjald eftir spjald, straujárnið nær vart að kólna á milli, því að auðvitað þarf að strauja alla þessa miklu handavinnu.  Henni gengur vel í leikskólanum, var í foreldraviðtali um daginn sem að kom vel út, þurfum samt að taka á einum hlut, en það er að láta ekki eftir henni þegar hún fer að væla, og venja hana af því að vera svona vælin yfir öllu sem að miður fer.  Hennar sterku hliðar eru fínhreyfingarnar og handavinna af ýmsu tagi, föndur er hennar fag!  Henni finnst afturámóti leiðinlegt að leika sér úti og er lengi að klæða sig og ef kalt er úti húkir hún við hurðina og bíður eftir að vera hleypt inn aftur.  Hefur kannski eitthvað að segja að hún var ekki vön að vera mikið úti að leika sér meðan við bjuggum úti, nema þá náttúrulega í góðu veðri.  En þetta er allt í rétta átt og þær voru mjög ánægðar með hana, enda komin af góðu fólki, gáfuð og vel upp alin! Glottandi

Er loksins búin að pakka ofaní tösku fyrir ferðina, finna til vegabréfið og græja mig til, fer svo til beint úr vinnunni uppí flugstöð.  Við ætlum þó að sækja stelpurnar og koma þeim í pössun til Önnu, en þær verða svo sóttar þangað.  Náum að kveðja þær, en spurningin er hvernig Aníta greyið tekur þessum aðskilnaði frá mömmu sinni, hefur aldrei verið svona lengi í burtu frá mér áður, metið er 3 nætur, núna verða þær 5!  Mamman er nú þegar búin að fá geðveikt samviskubit yfir að skilja þær svona eftir og fór með þeim í dótabúðina seinnipartinn og prinsessaði þær aðeins upp með hálsmenum, eyrnalokkum og hringum ásamt prinsessuskóm.  Úff, eins gott að það séu bara ljót barnaföt í henni Ameríku, þetta gæti annars endað í ferðatöskum!


Algjört met!

Hefur ekki gerst í manna minnum að ég hafi verið svona dugleg eftir að ég fór að vinna úti!!  Búin að ryksuga og skúra og þvo þvott, þurrka og taka til - er stolt af sjálfri mér eftir daginn!! Svalur

Meiri veikindi

Jæja, núna erum við mæðgur, þ.e. ég og Aníta heima í dag.  Hún er veik enn eina ferðina greyið.  Fór með hana á mánudaginn í síðustu viku og þá var hún með eyrnabólgu, fékk pensillín, kláraði á laugardaginn, komin með hita aðfararnótt sunnudags en annars hress.  Var svo orðin drulluveik þegar ég sótti hana til dagmömmunnar í dag, gröfturinn lak svoleiðis úr augunum á henni og hún var eins og geimvera í framan (soldið ýkt)!  Læknirinn sá greinilega eyrnabólgu hægra megin svo að það lítur út fyrir að pensillínskammtur síðustu viku hafi ekki gert neitt gagn, orðin ónæm fyrir Flemoxin.  Er núna komin á eitthvað meira krassandi og við skulum vona að henni fari að batna núna, ómögulegt að hún finni alltaf svona til í eyranu sínu.

Af öðrum málum að þá er bóndinn í Glasgow þessa vikuna, væntanlegur heim um hádegi á föstudag.  Ekki er alveg útséð með Boston ferðina sem að vera átti í næstu viku, það getur verið að hún standist ennþá svo að - watch this space!

Var með smá námskeið niðrí vinnu í gær, gekk alveg sæmilega, gaman að geta miðlað af kunnáttu sinni til þeirra sem að minna vita! Ullandi

Gistum hjá Önnu Siggu og Palla á laugardagskvöldið - stelpurnar voru hjá "Mæju ömmu" - það var voða gaman í afmælinu sem að við fórum í og svo var líka gaman í fermingarveislunni sem að við fórum í á sunnudaginn, alltaf gaman að hitta ættingja og spjalla.  Jón Fannar var búinn að vera á ferðalagi í 24 tíma þegar hann lenti klukkan 3 á laugardaginn og var soldið þreyttur, en er svona að jafna sig á tímamismuninum þessa dagana. 

Stefni á það að ryksuga og taka soldið til í dag fyrst ég er heima - þið vitið nú hvað mér finnst það gaman...hehehe


Flutningar

Jæja, hef ákveðið að færa bloggið okkar hingað yfir, var ekki alveg sátt við virknina á blogcentral - fannst vanta fídusa sem að eru í boði hér.  Þar fer náttúrulega fremst í flokki sá möguleiki að geta sett inn myndir án mikillar fyrirhafnar!

Við mæðgur vorum annars að koma úr fimleikum - og ég er að fara að pakka okkur niður til næturgistingar í höfuðborginni.  Jón Fannar er búinn að vera að ferðast í 24 tíma núna og lendir uppá velli klukkan 15:00.  Flaug frá San Fransisco til Heathrow í gær og náði svo hádegisvélinni þaðan og hingað heim.  Auminginn fær nú ekki að sofa mikið, við erum að fara í afmæli í kvöld, fermingarveislu á morgun og mat til mömmu hans og pabba annaðkvöld - svo að það er nóg að gera hjá okkur þessa helgina, hann nær kannski að leggja sig í 2-3 tíma hjá mömmu á eftir.  Ekki verður Adam lengi í paradís í þetta sinn, hann þarf að fara til Glasgow á mánudagsmorguninn, flýgur fyrst til London og svo þaðan til Glasgow - nær vonandi síðan beinu flugi heim á föstudaginn frá Glasgow - getur verið að hann verði svo í Boston vikuna á eftir, eða aftur í Glasgow - þetta kemur allt saman í ljós.............stuna...........ég er að hugsa um að binda hann fastan heima bara yfir páskana!

Nína Björk Jónsdóttir á afmæli í dag og óskum við henni hjartanlega til hamingju með daginn - þú færð knús og kossa í kvöld þegar við mætum í partýið! :o)

Annars er 1. apríl í dag - svo að nú eins gott að láta ekki gabba sig! Hlæjandi


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband