Föstudagur, 28. desember 2007
Árið 2007
Árið hófst með hefðbundnum flugeldasprengingum og gleðskap fram undir nýjársdagsmorgun í félagsskap góðra vina. Árið var í heildina ár rólegheitanna - miðað við mörg undanfarin ár.
Janúar var fremur tilbreytingalaus framanaf, en 5 ára afmæli eldri heimasætunnar setti þann mánuð á kortið, enda var haldið upp á herlegheitin með pompi og pragt sem hæfir prinsessum sem henni.
Febrúar var tíðindalítill, vinna, borða og sofa voru í fyrirrúmi, þó við hjónin gerðum okkur glaðan dag með góðum vinum eina helgina og gistum á hótel Hamri. Flensa ársins lagðist þungt á heimilisfólk og stóð yfir í vikutíma.
Í mars var svo lítið um að vera, að það tók því ekki einu sinni að blogga um þann mánuð, þó rámar mig nú í að hafa farið á eina árshátíð, tvær fermingar, prjónað húfur og verslað ný borðstofuhúsgögn. Ekki slæmur árangur í annars tíðindalitlum mánuði.
Apríl hélt innreið sína með ferð í höfuðborgina, út að borða með góðra vina hópi og leikhúsferð, rauðvínsspjalli í kjölfarið og gistingu á hótel Loftleiðum í kjölfarið. Enn ein ferming fylgdi í kjölfarið, svo og heimsókn upp í sveit. Sumardagurinn fyrsti boðaði sumarkomu með tilheyrandi hjólreiðatúr og hönnun sólpallar hófst fyrir alvöru. Prjónabakterían breyttist yfir í heklbakteríu og sumarbústaðarferð með saumaklúbbnum og mökum var kærkomin tilbreyting, svo og galakvöldið á hótel Örk í lok mánaðarins. Nóg um að vera...
Maímánuðir hóf innreið sína með Londonferð og strax í kjölfarið 20 ára fermingarafmæli. Strax eftir helgina lagðist ég síðan undir hnífinn til að láta laga hnökra sem orðið höfðu á fyrri bakflæðisaðgerðum og í kjölfarið var ég frá vinnu í 4 vikur, general afslappelsi í gangi allan mánuðinn hjá mér, verst að byggingu sólpallsins var ekki lokið, en smíði hans fór einmitt á fullt í mánuðinum. 3x3ja ára afmæli á 10 daga tímabili tók við, en yngri heimasætan varð sú síðasta í röðinni til að halda sitt prinsessuafmæli. Það má þó með sanni segja að maímánuður hafi verið mánuður umbyltinga og breytinga í lífi okkar, húsbóndinn réð sig í vinnu á Íslandi mér til mikillar gleði, og ég sendi inn umsókn í háskólanám.
Júnímánuðir var mánuður utanlandsferðanna. Fyrst fór ég í vikuferð með vinnunni til Ítalíu, og í lok mánaðarins fórum við hjónin í rómantíska helgarferð til Parísar. Síðustu helgina fórum við fjölskyldan síðan á ættarmót í Borgarfirðinum, í fyrsta skipti í allt of mörg ár, örugglega komin 10-15 ár síðan ég mætti síðast á þetta ættarmót, sem ku víst vera haldið annað hvert ár - vúpps! Yngri heimasætunni tókst næstum því að koma í veg fyrir ítalíuferðina með því að detta á hausinn á leikskólanum og fá heilahristing, 18 tímum áður en flugvélin átti að fara í loftið, en sem betur fer reyndist hann vægur og hún var fljót að jafna sig. Pallasmíðin hélt áfram og smá mjakaðist í átt að sólpalli. Eiginmaðurinn byrjaði í nýju vinnunni sinni og ég fékk jákvætt svar frá skólanum og sagði upp í vinnunni um hæl.
Júlímánuður var mánuður sumarfrísins, sólarinnar og afslappelsins. Ekki urðu nein stórtíðindi í þeim mánuðinum, smá ferðalög innanlands í sumarbústað og með tjaldvagn. Að öðru leyti var mánuðurinn tíðindalítill, bygging sólpalls smá mjakaðist áfram.
Verslunarmannahelgarvikunni eyddum við í sumarbústað með góðum vinum fyrir austan fjall. Að öðrum kosti var ágúst mánuður tíðindalítill, nema hvað við hjónin hættum bæði í vinnunum okkar. Hann sagði endanlega skilið við starfsfélaga sína erlendis og ég hætti í ritarastarfinu og byrjaði í hlutastarfi sem tölvuumsjónarkona enda settist ég á skólabekk í lok mánaðarins. Og jú, við fórum í brúðkaup til Skúla og Erlu og ljósanótt var í lok mánaðarins, nóg um að vera eins og vanalega.
September var tíðindalítill sökum anna hjá mér í skólanum, þó hann hafi verið einstaklega blautur frá upphafi mælinga. (sko rigningin, þó að eitthvað hafi verið um glaum og gleði!). Síðustu helgina fórum við á árshátíð TM í Gullhömrum og gistum á Nordica um nóttina. Meira situr nú ekki eftir í hausnum um þann mánuðinn.
Október var mánuður mikilla skilaverkefna hjá mér og einkenndist struktúr hans því af því hvað hentaði hverju sinni. Skruppum þó í jeppaferð upp á hálendið og gistum eina nótt í Hólaskjóli eftir að hafa þvælst um víðan völl fyrr um daginn. Eins gistum við eina helgina hjá vinum ásamt dætrunum og borðuðum þar góðan mat í góðra vina hópi, sem sumir hverjir voru komnir langt að.
Nóvember hóf innreið sína með hinu alræmda HallóVín partýi sem tókst með fádæmum vel. Lítið bar til tíðinda annars í okkar lífi í mánuðinum, skrópuðum í einu jólahlaðborði (sökum barnapössunarvandræða og skilaverkefnaanna) en mættum á annað á lokadegi mánaðarins, og gistum þá á hótel Plaza í kjölfarið.
Desember var mánuður hins mikla próflestur, og lítið gert annað en að lesa undir próf allan mánuðinn. Auðvitað gekk lífið sinn vanagang á milli prófa, skruppum í smá jólapartý hjá vinnunni minni um miðjan mánuðinn, en að öðru leyti var ekki mikið útstáelsi á okkur þennan mánuðinn. Til að fagna próflokum og jólafríi, fórum við svo ásamt 3 vinahjónum okkar á Hótel Sögu eina nótt rétt fyrir jól, kíktum í spaið, fórum fínt út að borða og nutum lífsins, fjarri annríki jólanna. Steiktum laufabrauðið á þorláksmessukvöld, svona rétt til að fá rétta stemmarann í hús. Jólin voru hefðbundin veisla áts, gjafa og fjölskylduboða og una nú allir sælir við sitt og bíða áramótanna, þó að forskot hafi verið tekið í kvöld með nokkrum stjörnuljósum fyrir sprengjuóðar heimasætur.
Árið 2007 var í heildina gott ár og við skiljum við það sátt og með fögnuð í hjarta um að enn eitt árið hafi gengið stóráfallalaust fyrir sig í lífi okkar.
Lifið heil og megi árið 2008 færa okkur öllum gleði og hamingju
Athugasemdir
Gleðilegt ár og takk fyrir allt hið liðna. Vona að þið hafið það sem best á nýju ári.
Siggi Már (IP-tala skráð) 1.1.2008 kl. 23:26
Gleðilegt ár og takk fyrir góðar stundir á liðnum árum.
Sigurbjörg (IP-tala skráð) 2.1.2008 kl. 11:56
Mar getur nú bara ekki annað en kommentað á sona færslu. Gleðilegt ár sömuleiðis og vonandi gengur nú 2008 einnig stóráfallalaust fyrir sig!
Heiðdís (IP-tala skráð) 2.1.2008 kl. 23:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.