Þriðjudagur, 21. nóvember 2006
Titlar
Jæja, þá er maður loksins orðin ömmusystir, ekki það að ég hafi verið farin að örvænta, enda bráðung ennþá og amman aðeins 4 árum eldri en ég! Það er svo skrýtið hvað svona titlar geta verið óraunverulegir. Mér finnst t.d. systir mín ekki líta út eins og ömmur eiga að vera. Mamma mín er langt frá því að vera langömmuleg og amma mín er ekki eins og langalangamma. Ég man eftir langömmum mínum, fjörgömlum með grátt hár, í hjólastólum eða á elliheimilum, rúmfastar og komnar yfir nírætt, þ.e. þeim sem að náðu að lifa það af að vera á lífi eftir að ég komst á vitsmunaaldur. Amma mín er t.d. enn í fullu fjöri, býr í miðbænum, fer á hverjum degi í sund, keyrir sér sjálf útum allan bæ og er á fullu í félagsstarfinu hjá eldri borgurum, dansar og spilar og föndrar enda ekki nema rétt rúmlega sjötug konan. Ég man reyndar eftir ömmu þegar ég var lítil, hún var svona miklu meiri ömmutýpa heldur en t.d. systir mín er, alltaf í eldhúsinu eða að sauma eða prjóna eða baka, en kannski breytist fólk bara við að hreppa þennan titil , maður veit aldrei hvað gerist. Ég held að það sé soldið erfitt fyrir ömmur nútímans að keppa við t.d. manns eigins ömmur. Konur sem að voru heimavinnandi og lifðu fyrir að stjana við börn og bú. En svona er þetta bara, tímarnir breytast og mennirnir með. En annars er þetta ekkert nýnæmi svosem í minni fjölskyldu, amma mín var t.d. á svipuðum aldri og systir mín er núna þegar hún varð amma systur minnar, og mamma mín var heldur yngri en það þegar hún varð amma, svo að kannski er þessi ömmuímynd eitthvað sem að kemur sjálfkrafa með ömmutitlinum. En ég fæ víst ekki að upplifa það í bráð, enda verð ég orðin fjörgömul þegar ég hef tækifæri á að verða amma, ja, svona á svipuðum aldri og mamma er núna, og hún er orðin langamma!! Vá, þetta er orðin langloka um langar ömmur...
Annars ætlaði ég bara að segja ykkur að hann Bumbuz litli frændi minn er loksins fæddur, kom í heiminn klukkan 23.26 á sunnudagskvöldið 19.11 og vóg 15 merkur og var 54 sentimetrar. Þetta hafðist að lokum en hafði þá staðið yfir í tæpa 45 tíma svo að allir voru orðnir þreyttir þegar hann loksins mætti á svæðið. Hann hafði greinilega ákveðið að fá sinn eiginn afmælisdag, þar sem að mamma hans átti afmæli þann 18 og langafi hans 20, svo að hann rétt slapp fyrir horn þann 19., svo að það verður nóg að gera á þeim bæ í nóvember, afmæli eftir afmæli eftir afmæli!!
Og hvað er svo með þetta veður, loksins kominn snjór, og þá bara slabbast allt niður - hvernig væri nú að fara ákveða sig með þetta þessir veðurguðir, maður er barasta ekkert viss um hvort að það sé vetur, vor eða haust??
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.