Bloggfærslur mánaðarins, maí 2006

Göngum, göngum, göngum uppí...

...ísbúð!  Ég var örugglega ekki búin að segja ykkur frá gönguklúbbnum sem að við nokkrar í vinnunni stofnuðum um daginn.  Fórum í jómfrúargönguna á þriðjudaginn síðasta eftir vinnu, það var þetta fína veður úti þegar gangan hófst, en eftir u.þ.b. 5 mínútur, var komin mígandi rigning.  Túrinn var í heildina um klukkustundar langur, og notuðumst við við göngustíga sem að liggja í gegnum leita og vallahverfin.  Við erum stoltar af því að hafa staðist freistinguna því að leiðin lá framhjá aðal ísbúð bæjarins - en það langar engann að borða ís úti í rigningu.  Við ætlum að halda áfram að hittast á þriðjudögum og tökum börnin með okkur.  Vonandi verður amk. þurrt næst!

Annars var ég í bæjarrápi í dag, læknastúss á okkur mæðgum, enduðum allar í stólnum hjá háls-nef og eyrnalækninum.  Hann vildi meina að þetta eyrnavesen á stelpunum væri að öllum líkindum arfgengt og að annað, ef ekki bæði foreldranna verið eyrnabörn.  Ég sagði að það væri nú skrítið, því að við hefðum sko ekki verið með í eyrunum sem börn.  Hann bað mig vinsamlegast um að setjast í stólinn svo að hann gæti mælt og skoðað mig í boði hússins, og hvað haldið þið, ég hef verið með miklar eyrnabólgur sem barn því að hljóðhimnan hægra megin sérstaklega ber þess merki. (einhver vansköpun og hola á henni).   Stundum er hægt að vera með bólgur í mörg ár, án þess að nokkuð virðist að barninu.  Einu vísbendingarnar geta verið að barnið fer að heyra illa - samanber það sem að var að Elizu Lív, greinilega búin að vera með eyrnabólgu í mörg ár og hálf heyrnarlaus þar til að hún fékk rörin um daginn.  Og svo hefur hún líka verið með eyrnabólgu bara fyrir nokkrum vikum, en þökk sé rörunum, að þá lak hún bara beint út!  Hann sagði líka að ég gæti hafa fengið bara í hægra eyrað, og þess vegna ég ekki misst heyrn og þetta aldrei uppgötvast.  Og að þetta hafi síðan bara gengið til baka með árunum, og ég verið heppin, því að þetta hefði getað endað á hinn veginn, með einhverjum agalegum sjúkdómi, sem felur í sér heyrnarleysi og jafnvel dauða ef ekki er gripið nógu snemma inní.  Held að hann hafi verið að hræða mig til að koma með stelpurnar á réttum tíma í skoðun á 3. mánaða fresti, hann fékk nefnilega barn í síðustu viku til sín sem að hafði verið trassað að koma með í tékk í heilt ár og allt komið í óefni!  En við erum semsagt á góðu róli, eyrnalega séð!

Bóndinn er enn í útlöndum (Hamborg og London), og ekki væntanlegur fyrr en aðfararnótt laugardags, spurning hvort að hann sjáist eitthvað heima yfir helgina, brjálað að gera í húsbyggingu!  Eitthvað var hann að tala um að fara til Denver í næstu viku, en ekkert komið á hreint með það ennþá - kemur í ljós um helgina! 

Úlpur eru annars illfáanlegar í landi elds og ísa á þessum árstíma.  Ég hefði haldið að úlpur þyrftu að vera til sölu á Íslandi, á öllum árstímum, því að hér er alltaf kalt, bara mismikið!  Ekki get ég af því gert að barnið tók upp á því að vaxa uppúr úlpunni sinni núna, en ekki á hentugum úlpusölutíma!  Ég er búin að þræða alla Kringluna 2x en það er engin úlpa til þar í stærð 92 á stelpu - bara léttir sumarjakkar og vindjakkar.  Dettur enn í hug 2 staðir til að kíkja á, en fresta því fram að næstu bæjarferð, hún verður bara að brúkast við ermastutta úlpu stelpuskottið, fólk heldur örugglega að við séum svona illa stödd, álpappír í gluggunum og barnið í of litlum fötum, hahahahahahahahahahahaha............... Hlæjandi

Gaman að þessu!


aftur og aftur og aftur!

Eða þessi, harkan í kellu - skildi hún enn lifa aktívu kynlífi?  Skildi hún alltaf nota sama brúðarkjólinn?  Ja, ef að svo er, að þá er ekki annað hægt að segja en að það hafi verið góð fjárfesting - fyrir uþb. 85 árum eða svo!!!
mbl.is 104 ára gömul í 21. hjónabandið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að kvænast!

Ég skil nú ekki hvar þessi kona finnur tíma til að giftast svona oft!  Ég á í vandræðum með þetta eina brúðkaup sem að við erum að koma á laggirnar - hvað þá að vera með þá þrjá í takinu í einu!


mbl.is Á yfir höfði sér málaferli vegna fjölveris
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vindan

Fín helgi að baki - búið að bralla eitt og annað, en samt mest megnis rólegheit, nema laugardagskvöldið varð aðeins viltara heldur en planið var - en bara gaman að því, fullt af góðu fólki að skemmta sér saman. 

Eitt sem að mig langar að nefna er að eftir að leigubílagjaldsvæðið sameinaðist höfuðborgarsvæðinu, að þá er barasta lífsins ómögulegt að fá leigubíl í miðbæ Keflavíkur.  Höfum lent í þessu alltof oft og fleiri sem að við þekkjum eru að lenda í þessu, þetta fer barasta að minna á leigubílaröðina sem að myndaðist hérna um árið í Reykjavík eftir að djammi lauk klukkan 3 - nema hvað að hér duga bara handalögmálin ennþá við að ná sér í bíl!  Annars verður maður bara að labba!  Næst verða það bara strigaskórnir í bæinn - tek ekki séns aftur að skrönglast á hælum heim!

Þvottavélin okkar bilaði í gær - hætti allt í einu að vinda þvottinn svo að Jón Fannar þurfti að fara til Þýskalands í morgun hálf fatalaus (ja, en samt ekki, bara ekki með þau föt sem að hann vildi).  Ég var því komin í mikinn bobba með þvottinn, því að mér finnst best að þvo í skorpum, og hafði ætlað mér að þvo mikið í gær og í dag.  Var síðan svo svakalega heppin að mig dreymdi hvað var að þvottavélinni síðustu nótt og það stemmdi síðan þegar betur var að gáð!  Litlar hendur höfðu greinilega verið að "laga" hana aðeins fyrir mömmu sína og snúið vindutakkanum á no-spin stillingu.  Mikið agalega var ég fegin að uppgötva þetta og vélin búin að mala ágætlega í dag. 

Fór með stelpurnar í frítt verkalýðsbíó í dag og síðan með þær út að hjóla og á róló.  Á leiðinni heim kom síðan geðveik rigning og haglél svo að við urðum alveg hundblautar þó að við höfum ekki verið nema nokkrum húsum frá.  Elizu greyinu varð mikið um þessa "hroðalegu" lífsreynslu - þarf greinilega að senda hana oftar út í rigningu - herða hana aðeins!

Vinnuvikan framundan, mikið agalega er nú gott að hún er stutt, lítið planað framundan, smá læknastúss með Anítu í vikunni, saumaklúbbur sem að ég kemst líklega ekki í sökum barnapíuskorts (velviljaðir gefi sig fram) og svo náttúrulega frænkukvöldið, sem að reyndar er búið að aflýsa en gleymdist alveg að láta mig vita eftir að ég var búin að breyta og skipuleggja í kringum það - alveg agalega fer það í pirrurnar á mér þegar maður fréttir eitthvað svona frá þriðja aðila sem að þá hafði vitað það í rúma viku!  Ég held að ég hafi haft meiri samskipti og hitt vini og ættingja oftar þegar við bjuggum úti - og það er sko ekki fjarri lagi!  Mér finnst fólk hérna alveg yfirmáta upptekið - kannski hef ég bara svona lítið að gera miðað við aðra - ekki er hægt að halda saumaklúbb svo mánuðum skiptir vegna þess að allir eru svo uppteknir, ekki er hægt að halda frænkukvöld svo mánuðum skiptir vegna þess að allir eru svo uppteknir!  Hvert er þetta þjóðfélag eiginlega að fara?  Ég bara spyr?  Engin furða að íslendingar séu svona stressuð þjóð - lífsgæðakapphlaupið er hreinlega að gera útaf við fólk og það hefur ekki tíma lengur til að njóta lífsins og slaka á, hvað þá að taka frá eina kvöldstund af og til fyrir vini og ættingja...

...ég er komin á fremsta hlunn með að taka þessu persónulega - held að það vilji bara enginn vera memm lengur Ullandi


Fram, þjáðir menn í þúsund löndum!

Á vefsetri ASÍ (Alþýðusambands Íslands) er sagt frá því að á þingi evrópskra verkalýðsfélaga í París árið 1889 var samþykkt tillaga frá Frökkum um að 1. maí skyldi verða alþjóðlegur frídagur verkafólks. Frakkar lögðu til að verkafólk notaði daginn til fjöldafunda til að fylgja eftir kröfum um 8 stunda vinnudag og aðrar umbætur á kjörum sínum. Rússar lögðust gegn tillögunni. Þeir töldu að undir þeim kringumstæðum sem ríktu í Rússlandi væri ómögulegt að framfylgja henni.

Valið á þessum degi styðst við rótgróna hefð í sunnanverðri Evrópu þar sem menn tóku sér oft frí þennan dag. Í heiðnum sið var hann táknrænn fyrir endalok vetrarins og upphaf sumarsins. Í Skandinavíu var 1. maí fyrsti dagur sumars. Kirkjan helgaði 1. maí dýrlingnum Valborgu sem var ensk prinsessa, trúboði og abbadís í Þýskalandi. Svíar halda enn þann dag í dag upp á Valborgarmessu kvöldið fyrir 1. maí.

Árið 1923 var fyrst gengin kröfuganga á 1. maí á Íslandi. Dagurinn varð lögskipaður frídagur á Íslandi árið 1972 en til samanburðar má geta þess að ríkisstjórn jafnaðarmanna í Svíþjóð gerði daginn að frídegi árið 1938.

Á 1. maí gengur launafólk undir rauðum fána og leikinn er alþjóðasöngur verkalýðsins, Internasjónalinn sem einnig kallast Nallinn. Sumir hugsa aðallega um Sovétríkin sálugu og alræðisvald kommúnistastjórna þegar þeir sjá fánann og heyra sönginn. En upprunalega merking þessara tákna er fyrst og fremst krafa um breytingar og réttlátara þjóðfélag. Rauði liturinn á fána verkalýðshreyfingarinnar táknar uppreisn gegn ranglæti. Hann þýðir að nú sé nóg komið, auk þess sem hann táknar dagrenninguna.

Alþjóðasöngur Verkalýðsins var fyrst fluttur opinberlega í júlí 1888. Höfundur er Eugén Pottier en Sveinbjörn Sigurjónsson þýddi sönginn yfir á íslensku. Lagið er eftir Frakkann Pierre Degeyter og er frá 1888.

Fram, þjáðir menn í þúsund löndum,
sem þekkið skortsins glímutök!
Nú bárur frelsis brotna á ströndum,
boða kúgun ragnarök.
Fúnar stoðir burtu við brjótum!
Bræður! Fylkjum liði í dag-
Vér bárum fjötra, en brátt nú hljótum
að byggja réttlátt þjóðfélag.

Þó að framtíð sé falin,
grípum geirinn í hönd,
því Internationalinn
mun tengja strönd við strönd.

1. maí 2006

Tekið af vísindavefnum, http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=2299 og vef ASÍ, http://www.asi.is/


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband